Landbúnaðarnefnd fundar um dýralæknaþjónustu

nóvember 9, 2011
Landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar lýsir yfir afar þungum áhyggjum af stöðu dýralæknaþjónustu í Borgarbyggð en nefndin tók málið fyrir á fundi sínum í gær. Í fundargerð segir m.a. „Eins og staðan er í dag er ekki tryggt að bændur fái þjónustu dýralækna á dagvinnutíma. Nýorðnar breytingar hafa það í för með sér að starfandi dýralæknum á svæðinu hefur fækkað.
Landbúnaðarnefnd krefst þess að Matvælastofnun endurskilgreini Borgarbyggð úr þéttbýlu svæði í dreifbýlt, þannig að dýrum sveitarfélagsins sé tryggð dýralæknaþjónusta allan sólarhringinn.
Sveitarfélagið er víðfeðmt, vegalengdir miklar og vegakerfið ekki eins og best verður á kosið. Samkvæmt nýrri matvælalöggjöf krefst Matvælastofnun þess að bændur tryggi velferð dýra sinna. Forsenda þess er örugg og skjót dýralæknaþjónusta. Nefndin fer fram á að gerður verði þjónustusamningur við dýralækna sem nær til dag- og næturvinnu.“
Umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi mun nú koma málinu áfram til Matvælastofnunar og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
 

Share: