Kynning á Sögu laxveiða í Borgarfirði þann 27. október

október 17, 2022
Featured image for “Kynning á Sögu laxveiða í Borgarfirði þann 27. október”

Í Borgarfirði eru gjöfular laxveiðiár sem eiga sér bæði langa og merkilega sögu hvað varðar veiðiaðferðir og áhrif á búsetu og landnýtingu í héraði. Í apríl síðastliðnum fékk Landbúnaðarsafn Íslands veglegan öndvegisstyrk til þriggja ára, frá Safnasjóði til að skrá sögu laxveiða í Borgarfirði. Áður hafði safnið fengið styrk til eins árs úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Þessi stuðningur hefur gert starfsmönnum Landbúnaðarsafnsins kleift að halda áfram með þá vinnu.

Verkefnið snýst um safna heimildum og rannsaka sögu laxveiða í Borgarfirði frá ólíkum sjónarhornum. Þessu efni verður síðan miðlað með útgáfu og sýningu á lofti Halldórsfjóss á Hvanneyri. Eitt af hlutverkum safna er að virkja og vera í sambandi við nærsamfélag sitt sem er afar mikilvægt hverju og einu þeirra. Af þessu tilefni boðar Landbúnaðarsafn Íslands til kynningarfundar um þetta metnaðarfulla verkefni sem segja má að sé eitt af þeim stærstu sem safnið hefur ráðist í. Fundurinn verður fimmtudaginn 27. október og hefst kl. 20:00 í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þar verður verkefninu formlega ýtt úr vör og kynnt betur fyrir fundargestum ásamt því að skapa umræður um þessa mikilvægu grein sem hefur þróast hratt síðustu ár. Áhugafólk og aðrir eru hvattir til að mæta og verða kaffiveitingar í boði fyrir aðframkomna!

Saga laxveiða í Borgarfirði er samstarfsverkefni Landbúnaðarsafns Íslands, Sambands borgfirskra veiðifélaga, Erfðalindaseturs Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar.

 

 


Share: