Kvöldstund með Kristrúnu á Bjargi

nóvember 1, 2010
í Bókasafni Akraness, Svöfusal. Dagskrá á Vökudögum á Akranesi í samstarfi Snorrastofu í Reykholti og Bókasafns Akraness fimmtudaginn 4. nóvember kl. 20.00
Þorsteinn frá Hamri
Þorsteinn frá Hamri tekur í hönd lítillar stúlku, Kristrúnar Hallgrímsdóttur frá Veiðilæk í Þverárhlíð, sem verður munaðarlaus á fimmta aldursári. Hann leiðir hana með gestum kvöldsins um ævistigu, sem um margt eru merkilegir. Til þess hefur hann bók sína, Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi, sem hann skrifaði um Kristrúnu og hennar fólk. Þorsteinn les valda kafla úr bókinni og að lestrinum loknum hefjast umræður við hringborð.
Þar sitja auk Þorsteins, Bragi Þórðarson bókaútgefandi og Snorri Þorsteinsson fyrrverandi fræðslustjóri í Borgarnesi. Gestum kvöldsins býðst að varpa fram spurningum til hringborðsins, sem einnig viðrar eigin spurningar og umhugsunarefni um liðna tíma.
 
Í hléi gefst gestum kostur á að skoða ljósmyndasýningu, sem Ljósmyndasafn Akraness, vinnur að um þessar mundir um sögu steyptu kerjanna í höfninni á Akranesi. Við uppsetningu sýningar þessarar hefur ljósmyndasafnið stuðst við dagbækur Benedikts Tómassonar, sonar Kristrúnar, sem hafa reynst hjálplegar við að glöggva sig á þessum tíma.

Share: