Kristín Þórhallsdóttir kjörin Íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021

janúar 18, 2022
Featured image for “Kristín Þórhallsdóttir kjörin Íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021”

Líkt og á síðasta ári var kjör á íþróttamanni ársins 2021 með öðru sniði en venja er. UMSB í samstarfi við tækninefnd MB, bjó til myndband sem birtist í síðustu viku og var það hún Kristín Þórhallsdóttir sem hlaut nafnbótina íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021.

Kristín hefur stundað klassískar kraftlyftingar frá árinu 2019 og varð þrefaldur Íslandsmeistari í -84 kg flokki kvenna árið 2021. Jafnframt varð Kristín stigahæsti keppandinn í kvennaflokki annað árið í röð og er nú orðin stigahæsti Íslendingurinn í íþróttinni óháð kyni, þyngdarflokki og aldursflokki.

Kristín setti fjölmörg Íslandsmet á árinu, til að mynda bar hún sigur úr býtum á Reykjavíkurleikunum í janúar og var fyrsti Íslendingurinn til að ná Evrópumeistaratitli á þrílyftumóti innan kraftlyftinga. Besta árangri sínum á árinu náði hún á Evrópumeistaramótinu og fékk gull í fjórum greinum, ásamt því að setja fjögur Íslandsmet og tvö Evrópumet.

Ásamt því að vera íþróttamaður Borgarfjarðar var hún valin Íþróttamaður Akraness 2021 og lenti í þriðja sæti í kjöri Íþróttamanns ársins 2021, stórkostlegt ár hjá dömunni og svo sannarlega verðskuldað.

Hægt er að horfa á útsendinguna hér.

 


Share: