Kór Menntaskólans við Hamrahlíð á ferð um Borgarfjörð

apríl 15, 2010
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð verður á tónleikaferðalagi í Borgarfirði dagana 17. – 19. apríl.
Kórinn heldur tónleika í Reykholtskirkju laugardaginn 17. apríl kl. 16.00. Sunnudaginn 18. apríl syngur kórinn við messu kl. 14.00 í Borgarneskirkju og um kvöldið verða almennir tónleikar í hátíðarsal Háskólans á Bifröst kl. 20.00.
Mánudaginn 19. apríl heldur kórinn ferna skólatónleika, í Varmalandsskóla (fyrir nemendur Varmalandsskóla og skólans á Kleppjárnsreykjum), í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi, í Grunnskólanum í Borgarnesi og í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Á tónleikunum flytur kórinn m. a. þátt úr Magnificat eftir Bach, tónverk Mozarts, Ave verum corpus, fyrir kór og strengjasveit, mótettuna Jubilate Deo eftir Orlandus Lassus,Duo Seraphim, mótettu fyrir tvo kóra eftir Jacobus Gallus Handl. Þá flytur kórinn íslensk tónverk eftir m. a. Atla Heimi Sveinsson, Gunnar Reyni Sveinsson, Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson.
 
Á þessari vorönn er kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 104 nemendum á aldrinum 16 – 20 ára.
Stjórnandi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir. Kórinn hélt tónleika í Reykholtskirkju 2005 en hann heimsótti
Reykholt í fyrsta sinn árið 1970. Kórinn hefur áður heimsótt Borgarnes (1977 og 1984). Fararstjóri í ferð
kórsins um Borgarfjörð er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason.

Á efnisskrá kórsins í tónleikaferðinni um Borgarfjörð eru íslensk og erlend tónverk m. a. eftir J. S. Bach,
W. A. Mozart, Carl Orff, Emil Thoroddsen, Gunnar Reyni Sveinsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel
Sigurbjörnsson auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Margir hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga.
 

Share: