Nemandi í Hagnýtri aðferðafræði við LBHÍ vann á dögunum verkefni fyrir Borgarbyggð. Um var að ræða könnun meðal íbúa á viðhorfum þeirra til úrgangsmála. Könnunin var símakönnun og úrtakið var 146 manns. Könnun sem þessi gefur vísbendingar um viðhorf íbúa til úrgangsmála og verður hægt að nýta við áframhaldandi þróun þjónustunnar. Nánast allir þátttakendur flokka úrgang eftir bestu getu, í þá flokka sem boðið er uppá en íbúar virðast enn vera óöruggir um hvaða úrgangur flokkast í grænu tunnuna. Áhugavert er að tæpur helmingur svarenda hefur ekki reynt að kynna sér upplýsingar um úrgangsmál og getur því ekki myndað sér skoðun á aðgengi að upplýsingum. Því má draga þá ályktun að tækifæri sé til að auka áhuga íbúa á úrgangsmálum almennt og auka fræðslu í málaflokknum. Þegar spurt var um tíðni losunar á gráu tunnunni töldu yfir 70% að núverandi fyrirkomulag væri mátulegt, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Sama var uppi á teningnum þegar spurt var um losun á grænu tunnunni, þó voru í við fleiri í þéttbýli sem töldu æskilegt að hún væri losuð oftar eða 32% svarenda, en 26% íbúa í dreifbýli vildu sjá hana losaða oftar. Spurt var um viðhorf til söfnunar lífræns úrgangs og þá kom í ljós að mun fleiri íbúar í dreifbýli en þéttbýli nýta allan lífrænan úrgang nú þegar. Þó er athyglivert hversu margir vilja hvorki að lífrænn úrgangur sé sóttur heim, eða vilja jarðgera sjálfir. Þegar spurt var um sorphirðugjöld skiptast íbúar í þéttbýli í tvo nánast jafn stóra hópa; annars vegar þeir sem vilja halda sorphirðugjöldum eins lágum og mögulegt er, óháð öllum umhverfissjónarmiðum og þá sem eru tilbúnir að greiða þann kostnað sem þarf til að úrgangur þeirra sé meðhöndlaður á þann sem æskilegt er m.t.t. umhverfissjónarmiða. Í dreifbýli eru það rúmlega helmingur svarenda sem vilja halda sorphirðugjöldum eins lágum og mögulegt er. Nánar má skoða niðurstöður könnunarinnar hér Könnun á viðhorfum íbúa til úrgangsmála