Byggðarráð Borgarbyggðar staðfesti á fundi sínum 6. júlí sl. bókun fræðslunefndar frá 13. júní sl. um að öllum börnum í grunnskólum Borgarbyggðar verði veitt nauðsynleg námsgögn og ritföng frá og með næsta hausti. Er það skref í gjaldfrjálsu skyldunámi sem stuðlar að jafnræði í námi og vinnur gegn mismunun barna.
Með ákvörðun sinni tekur byggðarráð undir þau sjónarmið að öll börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Reiknað er með að námsgögn nemenda kosti að jafnaði um 4.000 krónur á nemanda á ári. Í Borgarbyggð stunda 500 nemendur nám í grunnskólum og má því ætla að Borgarbyggð leggi skólunum til 2.000.000 krónur fyrir næsta vetur.