Könnun á aðgengi fatlaðra

ágúst 20, 2010
Inga Björk Bjarnadóttir sem unnið hefur hjá Borgarbyggð í sumar við skráningu gæludýra var einnig ráðin til að kanna aðgengi fatlaðra hjá stofnunum Borgarbyggðar og skila skýrslu um niðurstöðurnar. Miðvikudaginn 18. ágúst hafði Inga Björk skipulagt ,,hjólastólarallý“ þar sem hún bauð Páli S. Brynjarssyni sveitarstjóra og Jökli Helgasyni forstöðumanni framkvæmdasviðs að ferðast um á hjólastólum á nokkra staði í Borgarnesi. Með í för voru Haukur Valsson hjá Slökkviliði Borgarbyggðar sem keyrði þjónustubílinn og Björg Gunnarsdóttir umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi sem skrásetti það sem fyrir augu bar og tók myndir, en nokkrar þeirra fylgja hér með fréttinni.
Byrjað var í ráðhúsi Borgarbyggðar þar sem kannað var aðgengi að fundarsölum, lyftunni og salerni auk þess að athuga hvernig þátttakendum gengi að komast út úr húsinu. Þaðan var ekið í leikskólann Ugluklett þar sem öll aðstaða innan og utanhúss var könnuð og síðan niður í Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi þar sem kannað var aðgengi fatlaðra að búningsklefum, salernum og sundlauginni. Þá var farið að ráðhúsinu aftur og farið á hjólastólunum um gangstíga og gangbrautir í nágrenni þess.
Þetta var afar fróðleg ferð sem sýndi hversu mörgu þarf að huga að þegar verið er að skipuleggja húsnæði, götur og gangstíga. Niðurstöður Ingu Bjarkar munu verða birtar á heimasíðunni þegar verkefninu lýkur.
 
 

Share: