Kennsluráðgjöf í upplýsinga- og tæknimennt

febrúar 2, 2017
Featured image for “Kennsluráðgjöf í upplýsinga- og tæknimennt”

Borgarbyggð hefur samið við Hjálm Dóra Hjálmsson ráðgjafa hjá Þekkingu hf. um að veita kennurum í grunnskólum Borgarbyggðar ráðgjöf og fræðslu í upplýsinga- og tæknimennt á árinu 2017.

Á sl. tveimur árum hefur tölvubúnaður skólanna verið endurnýjaður og spjaldtölvum bætt úrvalið.

Megintilgangur kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í grunnskólum er að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi. Tæknifærnin felur m.a. í sér getu til að nýta ýmis tæki, tæknibúnað og fjölbreyttar úrvinnsluleiðir. Tæknilæsi snýr að því að nýta tækjabúnað til að afla sér þekkingar og miðla henni. Einnig felur upplýsingalæsi í sér hæfni í að afla, flokka og vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt.

Helstu verkefni Hjálms Dóra verða að halda Office 365 grunnnámskeið þar sem kennurum og starfsmönnum skólanna verður kynnt umhverfi Office 365, Onenote og Onenote Class Notebook. Hann mun halda kynningu á Mystery Skype og Sway og fer yfir notkunarmöguleika þeirra í skólastarfi. Einnig mun hann aðstoða kennara við skipulag og framkvæmd verkefna með nemendum sem snúa að upplýsingatækni og notkun iPad spjaldtölva í skólastarfi. Að lokum mun Hjálmur Dóri koma að markmiðasetningu og stefnumótun í upplýsingatækni með stjórnendum og kennurum fyrir grunnskóla Borgarbyggðar.


Share: