Kaupmannsheimilið – sýning opnuð í dag

maí 12, 2010
Hluti sýningarinnar_gj
Sögusýningin Kaupmannsheimilið verður opnuð í Safnahúsi í dag miðvikudaginn 12. maí. Um er að ræða einstakt safn gagna og muna úr eigu fjölskyldu Jóns Björnssonar frá Bæ og Helgu Maríu Björnsdóttur konu hans og er uppistaðan rausnargjöf sem söfnunum barst fyrir nokkru.
Jón frá Bæ stundaði kaupmennsku í Borgarnesi á fyrstu áratugum 20. aldar og var heimili þeirra hjóna mikilvægur hornsteinn bæjarlífsins á þeim tíma. Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Byggðasafns Borgarfjarðar og verður haldið upp á afmælið samhliða opnuninni. Í tilefni dagsins mun Sæmundur Sigmundsson heiðra afmælisbarnið með sýningu á fornbílum úr eigu sinni. Sýningin verður opnuð kl. 17.30 í dag og fólk hvatt til að koma þá eða síðar til að skoða sýninguna, sem síðan verður opin alla virka daga frá kl. 13-18 til 15. nóvember.
Aðalhvatamaður að stofnun Byggðasafnsins á sínum tíma var Haukur Jörundsson kennari á Hvanneyri, en lengst vann Bjarni Bachmann fyrir safnið. Að stofnuninni stóðu Samband borgfirskra kvenna, Búnaðarsamband Borgarfjarðar, Borgfirðingafélagið í Reykjavík, Ungmennasamband Borgarfjarðar og Kaupfélag Borgfirðinga.
Í dag er safnið í eigu Borgarbyggðar með sérstökum þjónustusamningi við Skorradalshrepp og er Tómstunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins jafnframt stjórn safnsins. Það er eitt af fimm söfnum í Safnahúsi Borgarfjarðar, þar sem fastráðnir starfsmenn eru þrír auk lausráðinna starfsmanna sem ráðnir eru til tímabundinna verkefna. Í vörslu Byggðasafns Borgarfjarðar er margt muna sem gegna mikilvægu hlutverki í byggðasögu héraðsins.
 
Á meðf. mynd má sjá hluta sýningarinnar. Ljósmyndari: Guðrún Jónsdóttir.
 

Share: