Hluti sýningarinnar_gj |
Jón frá Bæ stundaði kaupmennsku í Borgarnesi á fyrstu áratugum 20. aldar og var heimili þeirra hjóna mikilvægur hornsteinn bæjarlífsins á þeim tíma. Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Byggðasafns Borgarfjarðar og verður haldið upp á afmælið samhliða opnuninni. Í tilefni dagsins mun Sæmundur Sigmundsson heiðra afmælisbarnið með sýningu á fornbílum úr eigu sinni. Sýningin verður opnuð kl. 17.30 í dag og fólk hvatt til að koma þá eða síðar til að skoða sýninguna, sem síðan verður opin alla virka daga frá kl. 13-18 til 15. nóvember.
Aðalhvatamaður að stofnun Byggðasafnsins á sínum tíma var Haukur Jörundsson kennari á Hvanneyri, en lengst vann Bjarni Bachmann fyrir safnið. Að stofnuninni stóðu Samband borgfirskra kvenna, Búnaðarsamband Borgarfjarðar, Borgfirðingafélagið í Reykjavík, Ungmennasamband Borgarfjarðar og Kaupfélag Borgfirðinga.
Í dag er safnið í eigu Borgarbyggðar með sérstökum þjónustusamningi við Skorradalshrepp og er Tómstunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins jafnframt stjórn safnsins. Það er eitt af fimm söfnum í Safnahúsi Borgarfjarðar, þar sem fastráðnir starfsmenn eru þrír auk lausráðinna starfsmanna sem ráðnir eru til tímabundinna verkefna. Í vörslu Byggðasafns Borgarfjarðar er margt muna sem gegna mikilvægu hlutverki í byggðasögu héraðsins.
Á meðf. mynd má sjá hluta sýningarinnar. Ljósmyndari: Guðrún Jónsdóttir.