Margt var um manninn í Skallagrímsgarði sl. sunnudag þegar jólaljósin voru tendruð á jólatré Borgarbyggðar.
Barnakór Borgarness hóf athöfnina með flutningi á nokkrum jólasöngvum undir stjórn Steinunnar Árnadóttur við undirleik Halldórs Hólm.
Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri hélt stutt erindi og sagði frá heiti og merkingu aðventukertanna og Andrea Jónsdóttir spilaði nokkur jólalög á saxófón við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur.
Eftir að ljósin á trénu voru kveikt, birtust nokkrir villtir jólasveinar sem dönsuðu í kringum jólatréð með gestum og gáfu börnunum mandarínur.
Nemendur 9. bekkjar Grunnskólans í Borgarnesi buðu uppá heitt kakó.