Jafnvægi í rekstri Borgarbyggðar

janúar 25, 2010
Fjárhagsáætlun 2010
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti fjárhagsáætlun árins 2010 samhljóða á fundi sínum 21. janúar, en áætlunin hafði verið tekin til fyrri umræðu 17. desember 2009.
Í forsendum fjárhagsáætlunar Borgarbyggðar er gert ráð fyrir að útsvarstekjur lækki áfram á árinu 2010 sem og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en tekjur af fasteignaskatti hækki vegna hærra fasteignamats. Ráðgert er að skatttekjur sveitarfélagsins lækki um tæplega 1% á milli ára og verði 1672 milljónir.
Álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðaleigu verður óbreytt, en gjaldskrár vatnsveitu og fráveitu munu hækka í samræmi við samninga sveitarfélagsins við Orkuveitu Reykjavíkur. Þá munu sorphirðugjöld hækka um 17%, en fyrirhugað er að taka upp tveggja tunnu kerfi við hvert hús í þéttbýli og fara í frekari flokkun á sorpi.
Skatttekjur Borgarbyggðar hafa lækkað um 7.3% eða 132 milljónir frá árinu 2008. Til að mæta lækkandi tekjum hefur sveitarstjórn Borgarbyggðar ásamt starfsmönnum unnið markvisst að því að ná niður rekstrarkostnaði. Þessi vinna er að skila árangri í fjárhagsáætlun árins 2010.
Fjárfestingum og viðhaldi fasteigna er haldið í lágmarki. Helstu framkvæmdir snúa að götum og gangstéttum í nýlegum hverfum með það að markmiði að tryggja öryggi vegfarenda, en alls verður fjárfest fyrir 33 milljónir á árinu 2010.
Niðurstaða á rekstri Borgarbyggðar verður jákvæð um 6.7 milljónir samkvæmt áætlun árins 2010. Veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 198 milljónir eða 8.8% af tekjum. Afborganir lána eru áætlaðar 247 milljónir og nýjar lántökur aðeins 50 milljónir. Þetta þýðir að skuldir sveitarfélagsins munu lækka um tæpar 200 milljónir á árinu 2010.
Þrátt fyrir að Borgarbyggð hafi glímt við erfiða fjárhagsstöðu frá miðju ári 2008, er ljóst að ýmis batamerki eru í fjárhagsáætlun árins 2010 enda er gert ráð fyrir frekari hagræðingaraðgerðum í rekstri sveitarfélagsins á árinu.
Nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri í síma 433-7100 eða 896-2177
 
 

Share: