Íþróttasafn Bjarna Bachmann komið í Safnahús

apríl 27, 2016
Featured image for “Íþróttasafn Bjarna Bachmann komið í Safnahús”

Í morgun færði fjölskylda Bjarna Bachmann Safnahúsi góða gjöf. Um er að ræða íþróttasafn Bjarna, bækur og muni sem tilheyrðu þessu mikla áhugamáli hans. Safninu hefur verið komið fallega fyrir í vönduðum sérsmíðuðum hillum og skápum sem fylgdu gjöfinni. Dagurinn til afhendingarinnar var valinn vegna þess að hann er afmælisdagur Bjarna sem var fæddur 27. apríl 1919 og lést árið 2010. Viðstödd afhendinguna var fjölskylda Bjarna auk sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og starfsfólks Safnahúss.

Bjarni Bachmann gegndi safnvarðarstarfi fyrir borgfirsku söfnin árin 1969-1994 eða í aldarfjórðung. Hann vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir söfnin á upphafsárum þeirra, ásamt eiginkonu sinni Önnu Þ. Bachmann sem einnig starfaði þar. Þau höfðu verið búsett í Borgarnesi ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 1961.

Bjarni lagði mikla elju í söfnunina og á þannig stóran þátt í þeim merka safnkosti sem söfnin búa að í dag. Eftir hann liggja einnig ýmis rannsóknaverkefni sem enn í dag eru verðmætar heimildir. Þess má einnig geta að Bjarni vann einna mest með Hallsteini Sveinssyni að því að koma merkri listaverkagjöf hans til safnanna um 1970. Með því var lagður grunnur að Listasafni Borgarness sem á um 500 listaverk í dag. Bjarni kom einnig á fót náttúrugripasafni sem deild innan byggðasafnsins. Þar má m.a. finna viðamikið og vandað fuglasafn auk steinasafns. Byggðasafn Borgarfjarðar elfdist mjög um daga Bjarna, svo og skjalasafn og bókasafn Borgarfjarðar. Allt var þetta rekið í sama húsnæðinu og heyrði undir sama forstöðumanninn. Einnig var Pálssafni komið fyrir í Safnahúsi í tíð Bjarna, en það safn er eitt merkasta einkabókasafn landsins. Nú hefur íþróttasafn Bjarna bæst við þá mæta muni aðra sem prýða söfnin. Safnið verður ekki til útláns, en til afnota á bókasafni. Á meðal gripanna í skápunum er falleg teikning af Bjarna og Önnu gerð af sonardóttur þeirra Þórhildi Kristínu Guðjónsdóttur Bachmann.

Eru fjölskyldunni færðar bestu þakkir fyrir þann hlýhug sem svo góð gjöf ber vott um.

Ljósmynd: frá vinstri: Geirlaug Jóhannsdóttir, Atli Bachmann, Björn Bjarki Þorsteinsson, Björg Kristófersdóttir, Þórður Bachmann, Guðjón Bachmann, Guðrún Bachmann, Anna Þ. Bachmann, Kristín Anna Stefánsdóttir, Eiríkur Ólafsson og Guðrún Jónsdóttir.

Myndataka: Jóhanna Skúladóttir

GJ


Share: