Íþrótta- og æskulýðsmál

mars 6, 2002

Núna í vikunni var lögð fyrir unglinga í 8.-10. bekk í grunnskólum Borgarbyggðar könnun á virkni þeirra í íþróttum og frítímastarfi sem boðið er upp á í Borgarbyggð.
Það var Sigurður Örn Sigurðsson nemi við Íþróttakennaraháskóla Íslands sem vann könnunina er hann var í starfskynningu hjá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Svarhlutfall var mjög hátt en nær allir grunnskólanemar skólanna á þessum aldri tóku þátt í könnuninni. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að 92 % nemenda í Grunnskólanum í Borgarnesi sækir reglulega atburði í félagsmiðstöðinni Óðali.
62 % grunnskólanema á Varmalandi sækja atburði í félagsmiðstöðinni og 93 % þeirra sækja skipulagt félagsstarf sem Varmalandskóli stendur fyrir hálfsmánaðarlega. Helmingur nemenda á Varmalandi myndi vilja opna sína eigin félagsaðstöðu að Varmalandi ef að félagslíf þeirra yrði aukið frá því sem nú er.
Um 90 % grunnskólanema á þessum aldri í Borgarnesi stunda íþróttir eða aðra heilsurækt í frítíma sínum og 83 % grunnskólanema á Varmalandi.
Eru þessar niðurstöður mjög svo jákvæðar og eru í takt við gott ástand þessa aldurshóps. Á þessu má væntanlega sjá árangur af forvarnarstarfi síðustu ára.


Share: