Íþróttamaður Borgarbyggðar 2002

febrúar 26, 2003
 
 
 
Kjör á Íþróttamanni Borgarbyggðar fyrir árið 2002 fór fram við hátíðlega athöfn í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi s.l. föstudag. Það eru deildir og félög í Borgarbyggð sem tilnefna sinn besta afreksmann og fær Tómstundanefnd Borgarbyggðar það erfiða hlutverk að útnefna íþróttamann ársins úr tilnefningum sem berast.
Að þessu sinni var það Hafþór Ingi Gunnarsson körfuknattleiksmaður í úrvalsdeildarliði Skallagríms sem varð fyrir valinu. Hafþór er vel að útnefningunni kominn, hefur leikið frábærlega fyrir lið sitt á síðasta ári og tekið miklum framförum. Hann bankar hressilega á landsliðsdyrnar í sinni íþrótt og er fyrirmynd þeirra yngri innan vallar sem utan.

Aðrir voru tilnefndir: Hallbera Eiríksdóttir var valin frjálsíþróttamaður ársins, Benedikt Líndal var valinn hestamaður ársins,Guðmundur Daníelsson var valinn golfari ársins, Berta Sveinbjarnardóttir var valin sundmaður ársins, Árni Jónsson var valinn íþróttamaður Kveldúlfs fyrir boccia, Guðmundur B. Þorbjörnsson var valinn knattspyrnumaður ársins og Heiðar Ernst Karlsson var valinn badmintonmaður ársins.
Viðurkenningar fyrir landsliðssæti í briddsíþróttinni hlutu þær Alda Guðnadóttir og Dóra Axelsdóttir sem fóru með landsliðinu til Ítalíu á árinu til keppni.
 
Við sama tækifæri veitti aðalstjórn Umf. Skallagríms viðurkenningar til frjálsíþróttadeildar Skallagríms fyrir gott starf á árinu og Grunnskólinn í Borgarnesi fyrir lipurt og gott samstarf við mótahald félagsins.
 
Veitt var úr Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvists Kristmarssonar og var það ung og efnileg íþróttakona Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem fékk viðurkenningu og íþróttastyrk að þessu sinni.
 
Íþróttamiðstöðin afhenti hvatningarverðlaun þeim Zsuzsönnu Budai og Kristínu Jónasdóttur fyrir ástundun í almenningsíþróttum en Kristín sem átti afmæli þennan dag hefur mætt sex daga vikunnar í morgunsundið sitt frá árinu 1979 og geri aðrir betur.
i.j.

Share: