Íþróttafrömuðurinn Íris Grönfeldt fagnar 20 ára starfsafmæli í dag.

september 21, 2007
Íris Grönfeldt íþróttafræðingur fagnar í dag, 21. september, 20 ára starfsafmæli í Íþróttamiðstöðinni Borgarnesi.
Síðustu ár hefur Íris sinnt almenningsíþróttum í fullu starfi við íþróttamiðstöðina og leiðbeint fólki í íþróttahúsunum í Borgarnesi, á Varmalandi og á Kleppjárnsreykjum.
Það eru ekki mörg sveitarfélög sem bjóða íbúum sínum upp á ókeypis leiðsögn íþróttafræðings í íþróttamiðstöðvum sínum og hefur metnaður Borgarbyggðar hvað varðar þessa þjónustu vakið athygli margra. Árangurinn er góður og hjálpar fólki að hefja heilsurækt með markvissum hætti.
Þeir mörgu sem hafa notið tilsagnar Írisar á þessum árum eru henni þakklátir fyrir hennar þátt í bættum lífsstíl.
Við óskum Írisi til hamingju með 20 ára starfsafmælið.
Á myndinni afhendir Páll bæjarstjóri Írisi blómvönd í tilefni dagsins í karlapúlinu í hádeginu, en það er í umsjón Írisar.
Kl. 15.00 ætla þeir sem stunda vatnsleikfimi að fjölmenna til Írisar og halda upp á þessi tímamót með henni í innilauginni.
Til hamingju Íris með áfangann.
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og starfsfólk ÍÞMB.
 

Share: