Íbúum fjölgar í Borgarbyggð.

júní 22, 2016
Featured image for “Íbúum fjölgar í Borgarbyggð.”

Eftir nokkra fækkun íbúa á árunum eftir hrun þá er íbúum Borgarbyggðar farið að fjölga á nýjan leik. Á síðustu þremur árum hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað um 4,8% eða nálægt 170 manns. Þann 1. janúar 2016 voru íbúar Borgarbyggðar samtals 3.637. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt að þróunin sé í þessa átt. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í héraðinu hefur farið vaxandi sem þýðir aukna hreyfingu á fasteignamarkaðnum og hækkun á fasteignaverði. Miklar framkvæmdir eru í sveitarfélaginu sem tengjast að miklu leyti auknum straumi ferðamanna um héraðið. Þar er meðal annars um að ræða uppbyggingu og stækkun hótela, opnun veitingastaða og annarra afþreyingarmöguleika, sem gerir það að verkum að ferðafólk dvelur lengur í héraðinu. Þessi þróun leiðir af sér aukna þörf fyrir vinnandi hendur bæði varðandi uppbyggingu og framkvæmdir svo er varðar daglegan rekstur fyrirtækjanna. Það er því ekki einungis hagstæðir veðurfarslegir vindar sem leika um um Borgarbyggð um þessar mundir. (GAJ)


Share: