Í ljósi umræðna um friðlýsingu Borgarvogs

febrúar 26, 2021
Featured image for “Í ljósi umræðna um friðlýsingu Borgarvogs”

Undanfarnar vikur hafa skapast miklar og góðar umræður vegna áforma um friðlýsingu Borgarvogs í Borgarbyggð. Sveitarfélagið fagnar því að íbúar sýni málefninu áhuga og hvetur áhugasama til þess að senda inn erindi ef það vakna upp einhverjar spurningar um verkefnið.

Staðan í dag er sú að ekki hafa borist öll gögn vegna friðlýsingarinnar. Samráðsferli við hagsmunaaðila hefur ekki farið fram, sem felur meðal annars í sér að fá umsögn frá náttúrustofu, öðrum fagstofnunum og sveitarfélaginu sjálfu. Gert er ráð fyrir þeirra aðkomu í ferlinu og verða umsagnir þessara aðila kynntar fyrir íbúum sveitarfélagsins á íbúafundi þegar þessi gögn og skilmálar friðlýsingarinnar að öðru leyti liggja fyrir. Auk þess hafa íbúar sjálfir möguleika á að senda inn umsagnir þegar drög að skilmálum friðlýsingarinnar liggja fyrir. Ferlið er því stutt á veg komið.

Á síðasta ári var ákveðið að kynna formlega áform um friðlýsingu Borgarvogs. Með áformum um friðlýsingu svæðisins er horft til þess að vernda til framtíðar, náttúrulegt ástand Borgarvogs og líffræðilega fjölbreytni svæðisins þannig að það fái að þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum og á eigin forsendum. Jafnframt þjóni það þeim tilgangi að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins sem og að almenningur fái notið svæðisins til náttúruskoðunar og fræðslu. Leirurnar í Borgarvogi njóta nú þegar verndar skv. Náttúruverndarlögum nr. 60/2013. Í 61. gr. lagana er fjallað ítarlega um vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Auk þess má nefna að Borgarvogur hefur um langt skeið verið á Náttúruminjaskrá í flokknum aðrar náttúruminjar vegna mikilvægis vistkerfisins fyrir fugla.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur einungis samþykkt að hefja undirbúning friðlýsingar en fjallað er nánar um ferlið í 40. og 41. gr. Náttúruverndarlaga, sjá hér. Í ákvæðunum er fjallað um efni auglýsingar um friðlýsingu og undanþágu frá ákvæðum friðlýsingar auk þess sem vakin er athygli á 49. gr laganna um friðlönd. Jafnframt er fjallað um stjórnunar- og verndaráætlun í 81. grein laganna. Slík áætlun skal gerð í samvinnu við eigendur svæðisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, viðkomandi sveitarstjórnir og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila. Það þarf samkvæmt lögum að auglýsa umrædda áætlun opinberlega og skulu athugasemdir við hana hafa borist innan sex vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Áætlunin er háð staðfestingu ráðherra og skal staðfesting og gildistaka áætlunarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Mikið hefur verið rætt um valdheimildir sveitarfélagins en það er misskilningur að allt vald yfir svæðinu færist á hendur Umhverfisstofnunar, enda á sveitarfélagið tvo fulltrúa í samstarfshópi um friðlýsinguna. Gert er ráð fyrir endurskoðun áætlunarinnar eftir því sem tilefni er til og því er ekki hægt að fullyrða að búið sé að afsala sér valdi yfir eigin strandlengju til frambúðar enda liggja skilmálar friðlýsingar ekki fyrir, skilmálar sem sveitarfélagið mun hafa aðkomu að.

Til upplýsingar er bent á friðlandið Andakíl hér.

Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið en  þar sem umrætt svæði nýtur þegar sérstakrar verndar og er á Náttúruminjaskrá, þarf að leita umsagnar Umhverfisstofnunar við gerð skipulagsáætlana og við veitingu bygginga- eða  framkvæmdaleyfa á og við umrætt svæði.

Að lokum má nefna að sveitarfélag getur ákveðið að setja hverfisverndarákvæði inn í skipulagstillögur en slík vernd getur ekki átt við um Borgarvoginn, þar sem svæðið er þegar friðað skv. öðrum lögum eins og rakið er hér að ofan. Á samfélagsmiðlum Borgarbyggðar hefur verið rætt um möguleika á hverfisfriðun svæðisins í stað friðlýsingar. Með hverfisfriðun er líklega átt við hugtakið hverfisvernd í skipulagsreglugerð sem er  „ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um vernd á sérkennum eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja.“ Í skipulagsreglugerð segir ennfremur: „Ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd. Hverfisfriðun eða hverfisvernd öllu heldur getur því aldrei átt við um viðkomandi svæði.


Share: