Hollvinasamtök Englendingavíkur stofnuð í Borgarnesi

október 17, 2003
Hluti af gömlu húsunum í Englendingavík
Síðastliðið mánudagskvöld var haldinn á Hótel Borgarnesi stofnfundur Hollvinasamtaka Englendingavíkur. Samtökin eru stofnuð í framhaldi af því að Borgarbyggð hefur eignast gömlu pakkhúsin 2 í Englendingavík og einnig hefur sveitarfélagið áhuga á að festa kaup á gömlu verslunarhúsunum á sama stað sem voru lengst af í eigu Kaupfélags Borgfirðinga.
Á næsta ári eru 150 ár síðan reglubundin verslun hófst í Borgarnesi eins og fram kom í grein Finnboga Rögnvaldssonar í síðasta Skessuhorni. Þannig vill til að þau mannvirki er tengjast þeirri sögu eru öll til og er það markmið Hollvinasamtakanna að stuðla að endurreisn þeirra í samráði við eigendur og halda sögu svæðisins á lofti. Einnig hafa Hollvinasamtökin það að markmiði sínu að vinna að verndun umhverfis og dýralífs í og við Englendingavík.
Um fjörtíu manns voru á stofnfundinum og gerðust þeir stofnfélagar í samtökunum. Fram kom hjá mörgum þeirra vilji til að leggja fram vinnu við endurgerð húsanna í Englendingavík en eitt af verkefnum samtakanna verður að leita eftir fjármagni hjá fyrirtækjum, félögum, einstaklingum og opinberum stofnunum til að standa straum af kostnaði við endurbæturnar. Í fyrstu stjórn Hollvinasamtakanna eru Ingibjörg Hargrave, Finnbogi Rögnvaldsson og Gísli Einarsson. Varamenn í stjórn eru Finnur Torfi Hjörleifsson og Þorkell Valdimarsson.


Share: