Hlutafé Vesturlands hf. þrefaldað

apríl 10, 2003
Gengið hefur verið frá samningum hlutafjáraukningu í Vesturlandi hf – eignarhaldsfélagi. Sparisjóður Mýrasýslu hefur samþykkt að leggja 138 milljónir í félagið í nýju hlutafé en Byggðastofnun leggur fram níutíu og tveggja milljóna króna mótframlag. Hlutafé fjárfestingafélagsins sem stofnað var um áramótin 1999 – 2000 var í upphafi 72 milljónir króna en verður eftir hlutafjáraukninguna 302 milljónir.

“Það má segja að þetta sé orðinn nokkuð myndarlegur fjárfestingasjóður á landsbyggðarmælikvarða og á að hafa bolmagn til að gera eitthvað en til þess er leikurinn gerður,” segir Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu. “Markmið sjóðsins er að styðja við atvinnurekstur á Vesturlandi og styðja við nýsköpun á svæðinu. Það er enginn spurning um að þessi sjóður á að geta gert mikið gagn fyrir uppbyggingu atvinnulífs hér á svæðinu, segir Gísli.
Eftir hlutafjáraukninguna á SPM 57% hlutafjár í Vesturlandi hf. Byggðastofnun á 40% en aðrir hluthafar eru Sparisjóður Ólafsvíkur, Kaupþing og sveitarfélög á Vesturlandi.


Share: