Á fundi tómstundanefndar Borgarbyggðar í vetur, var ákveðið að farið yrði í herferð gegn tóbaksnotkun í og við íþróttamannvirki sveitarfélagsins. Sett hafa verið upp plaköt í öllum íþróttahúsunum til að minna á bannið og auðvelda starfsfólki að fylgja því eftir.
Mest ber á notkun munntóbaks en reykingar eru helst vandamál þegar viðburðir s.s. íþróttaleikir eru í húsunum.
Bann við tóbaksnotkun á við um allt tóbak og nær til íþróttahúsa og lóðar sem tilheyrir þeim, sjá tóbaksvarnarlög og reglugerð þar að lútandi.
Ekki er aðeins um að ræða heilsuspillandi áhrif tóbaksnotkunar heldur er einnig um sóðaskap að ræða þar sem sígarettustubbar lenda oft á gangstéttinni við húsin og komið hefur fyrir að skálar á karlaklósettum stíflist af völdum tóbaks.
Starfsfólki hefur verið uppálagt að fylgja banni við notkun tóbaks eftir. Séu ábendingar starfsmanna ekki teknar til greina skal setja viðkomandi í bann í íþróttahúsinu/íþróttasvæðinu.
Varla þarf að fjölyrða um skaðsemi reykinga, flestir virðast gera sér grein fyrir áhrifum þeirra. Svo virðist hins vegar sem margir telji munntóbak skaðlítið.
Eftirfarandi er úr grein þýsku krabbameinsrannsóknarstöðvarinnar um skaðsemi reyklauss tóbaks:
Sænskt munntóbak og skaðsemi þess
„ Nikótín er taugaeitur og getur valdið eitrunaráhrifum eins og ógleði og öndunarörðugleikum og getur að lokum leitt til öndunarstopps sem veldur dauða. Nikótínskammtar, sem eru 0,8 til 1,0 mg á hvert kíló líkamsþyngdar, teljast banvænir. Hjá börnum getur eitt einasta milligramm af nikótíni valdið eitrunareinkennum“.
Greinina má finna á íslensku á síðu Embættis landlæknis
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item17726/Sænskt%20munntóbak%20og%20skaðsemi%20þess.pdf