Sunnudaginn 19. apríl mun hópur nemenda og kennara frá Tullbroskolan í Falkenberg í Svíþjóð koma í heimsókn í Grunnskóla Borgarness. Falkenberg er vinabær okkar í Svíþjóð. Alls koma 37 manns til landsins og eru svíarnir að endurgjalda heimsókn frá því í haust. Þau verða hér á landi fram til föstudagsins 24. apríl. Dagskrá er hægt að nálgast HÉR en hún er birt með fyrirvara um breytingar, s.s. vegna veðurs.
Heimsóknir sem þessar eru mikilvægar skólastarfinu þar sem nemendur kynnast jafnöldrum frá öðru landi, öðru tungumáli og menningarheimi. Til að svona stórt verkefni gangi upp, þarf samstillt átak allra sem að því standa, þ.e. nemenda, forráðamanna, kennara og skólastjórnenda. Nemendur voru duglegir og samviskusamir í samskiptunum og fjáröflunum, foreldrar voru reiðubúnir þegar til þeirra var leitað, kennarar sáu um allt skipulag og skólastjórnendur veittu stuðning og komu að skipulagi verkefnisins. Hiti og þungi verkefnisins hvílir á umsjónarkennurum 10. bekkinga þeim Ingu Margréti Skúladóttur, Heiðrúnu Hafliðadóttur og Gunnhildi Harðardóttur deildarstjóra og foreldrafulltrúum bekkjanna. Allir sem standa að verkefninu eiga þakkir skyldar fyrir óeigingjarnt starf.