Heimsókn breska sendiráðsins í Borgarbyggð

febrúar 24, 2021
Featured image for “Heimsókn breska sendiráðsins í Borgarbyggð”

Michael Nevin sendiherra Bretlands ásamt fulltrúum sendiráðsins komu í opinbera heimsókn til Borgarbyggðar, mánudaginn 22. febrúar sl. 

Sendiráðið heimsótti fyrirtæki í Borgarbyggð, fundaði með stofnunum og enduðu daginn á því að eiga samtal við breska ríkisborgara sem búsettir eru í sveitarfélaginu.

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri tók á móti föruneytinu í ráðhúsi Borgarbyggðar. Sendiráðið fékk kynningu á starfsemi Borgarbyggðar og þjónustu sveitarfélagsins. Auk þess voru ýmis málefni rædd, meðal annars atvinnu-, mennta- og menningarmál, framtíðaruppbygging sveitarfélagsins og þau verkefni sem eru í bígerð. Einnig var rætt um Covid-19 faraldurinn og áhrif þess á Borgarbyggð.

Breska sendiráðið gegnir mikilvægu hlutverki hér á landi. Ásamt því að viðhalda almennum tengslum milli Íslands og Bretlands, er það einnig hlutverk sendiráðsins að vera breskum ríkisborgurum innan handar á Íslandi. 

Borgarbyggð þakkar sendiherranum og fulltrúum sendiráðsins kærlega fyrir heimsóknina.


Share: