Hátíðarsamþykkt bæjarstjórnar Borgarbyggðar.

mars 16, 2001

Á 100. fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar 15. mars s.l. var samþykkt svohljóðandi tillaga:

,, Í tilefni af 100. fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar, sem haldinn er í veiðihúsinu við Hítará 15. mars 2001, samþykkir bæjarstjórn að veita Safnahúsi Borgarfjarðar 500.000 króna framlag til að þróa nánar og útfæra fram komnar hugmyndir um stofnun í minningu Egils Skallagrímssonar. Niðurstöður úr þeirri vinnu skulu sendar bæjarstjórn til skoðunar að verki loknu. ”

Með tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:

Borgarbyggð er sveitarfélag í byggð á miklum söguslóðum og er innan marka sveitarfélagsins þekktust Egilssaga, sagan af landnámi Skallagríms Kveld-Úlfssonar og litríku lífi skáldjöfursins Egils Skalla-Grímssonar. Tugþúsundir ferðamanna koma á ári hverju á þekkta sögustaði í Borgarfirði, s.s. Borg á Mýrum og í Reykholt. Í Borgarfirði er einnig sögusvið Gunnlaugssögu Ormstungu, Bjarnarsögu Hítdælakappa og fleiri merkra sagna. Þessi menningararfur er íbúum hér ekki einungis verðmætur sem hluti af sögu héraðsins, heldur er hann einnig sterkt aðdráttarafl, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Undanfarið hafa verið uppi hugmyndir, bæði hjá fræðslu- og menningarmálanefnd Borgarbyggðar svo og hjá Safnahúsi Borgarfjarðar um að koma á fót nýrri menningarstarfssemi tengdri nafni Egils Skallagrímssonar. Einnig hefur Safnahúsið haft samráð við Snorrastofu í þessu sambandi. Því er það mat bæjarstjórnar að vænlegt sé að reyna á að þróa og útfæra þessar hugmyndir frekar svo hægt verði að taka afstöðu til framkvæmdar og frekari fjármögnunar verkefnisins.


Share: