Háskólatónleikar á Bifröst með borgfirskum tónlistarkonum

nóvember 17, 2008
Háskólatónleikar á Bifröst verða haldnir miðvikudaginn 19. nóvember næstkomandi. Guðrún Ingimarsdóttir sópransöngkona og Jónína Erna Arnardóttir píanóleikari koma fram á tónleikunum.
Á efnisskránni verða lög af nýútkomnum hljómdiski Guðrúnar sem ber nafnið Norðurljós. Auk þess munu þær Guðrún og Jónína Erna flytja lög úr íslenskum leikhúsverkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Jón Ásgeirsson, Jón Þórarinsson og Sigvalda Kaldalóns.
Listakonurnar eru borgfirskar að uppruna, Guðrún alin upp á Hvanneyri og Jónína Erna í Borgarnesi. Þær hafa báðar langt tónlistarnám að baki og mikla starfsreynslu. Guðrún starfar sem söngkona í Þýskalandi og fleiri löndum á meginlandi Evrópu en Jónína er kennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar IsNord.
Tónleikarnir á Bifröst verða í Hriflu og hefjast klukkan 17.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
 

Share: