Háskóladagurinn á laugardag

febrúar 18, 2009
Laugardaginn 21. febrúar kynna háskólar landsins námsframboð sitt fyrir næsta skólaár. Kynningin fer fram á tveimur stöðum í borginni. Háskóli Íslands verður á Háskólatorgi, Gimli og Odda í Háskóla Íslands og í Ráðhúsi Reykjavíkur verða Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands. Þá verður á sama tíma boðið upp á kynningu á framhaldsnámi í Danmörku og Svíþjóð í Norræna húsinu.Möguleikarnir eru margir og skiptir máli að vanda valið. Gott tækifæri gefst til þess á þessum sameiginlega kynningardegi þar sem kynntar eru yfir 500 mismunandi námsleiðir.

Háskóli Íslands á Háskólatorginu – Gimli og Odda
Á Háskólatorgi Háskóla Íslands, og í Gimli og Odda kynna allar deildir Háskólans námsframboð sitt í grunnnámi og skipta námsleiðir hundruðum. Námsráðgjafar veita leiðsögn og ráðgjöf og fjölmargar þjónustustofnanir kynna starfsemi sína. Kynningin í Háskóla Íslands er öllum opin og gestum velkomið að skoða húsakynni skólans.

Sex háskólar kynna námsframboð sitt í Ráðhúsi Reykjavíkur
Í Ráðhúsi Reykjavíkur kynna sex háskólar fjölbreytt námsframboð á grunn- og meistarastigi: Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands. Námsframboð þessara skóla er, eins og nöfn þeirra bera með sér, ákaflega fjölbreytt og spannar allt frá hrossarækt og myndlist yfir í hefðbundnari greinar háskólanáms á borð við viðskiptafræði og lögfræði.

Kynning í Norræna Húsinu á 18 háskólum frá Danmörku og Svíþjóð
Kynnt verða auk hefðbundins háskólanáms fjöldi annarra styttri námsleiða. Þar er um að ræða bæði iðn- og viðskiptanám auk margra annarra, eins og t.d. hjúkrunar- og siglinganám. Ennfremur mun fulltrúi frá Menntamálaráðuneytinu í Danmörku veita upplýsingar um það nám, sem óskað er eftir.

Sjá nánar www.haskoladagurinn.is

Share: