Hallsteinssalur í Safnahúsi

apríl 28, 2009

Á sumardaginn fyrsta var opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi sýning á verkum úr listaverkasafni hins mæta listvinar Hallsteins Sveinssonar frá Eskiholti. Við þetta sama tækifæri var sal hússins gefið nafn og heitir hann nú Hallsteinssalur. Sýningin er tileinkuð Bjarna Bachmann safnverði sem vann ötullegt starf fyrir söfnin í Borgarfirði um aldarfjórðungsskeið.

Verkin eru eftir marga af þekktustu listamönnum landsins s.s. Nínu Tryggvadóttur, Þorvald Skúlason, Hring Jóhannesson, Kristján Davíðsson, Svavar Guðnason, Gerði Helgadóttur, Ásmund Sveinsson (bróður Hallsteins), Jóhann Briem, Hjörleif Sigurðsson og Pál Guðmundsson. Við val verkanna naut Safnahús faglegrar aðstoðar Helenu Guttormsdóttur myndlistarkonu.

Hallsteinn Sveinssonvar fæddur á Kolsstöðum í Dölum árið 1903. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni að Eskiholti í Borgarhreppi árið 1925 og bjó ýmist í Borgarfirði eða í Reykjavík eftir það. Síðustu æviárin átti hann á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Hallsteinn var afar listhagur. Hann smíðaði m.a. ramma fyrir ýmsa af okkar þekktustu listamönnum og oftar en ekki þáði hann myndverk frá þeim sínum að launum fyrir vinnu sína. Listaverkasafn hans ber því sterkt vitni að hann valdi verkin af mikilli næmni fyrir listinni. Hallsteinn ánafnaði Listasafni Borgarness safni sínu á sínum tíma, sem í dag er hluti af Safnahúsi. Gjöfin var í upphafi um 100 verk, en við það bætti Hallsteinn til muna síðar og fylgdi því eftir með peningagjöfum. Borgfirðingar standa í mikilli þakkarskuld við Hallstein og minnast hans nú með sýningu á úrvali úr safni hans.
 
Bjarni Bachmanner fæddur 27. apríl 1919 og verður því níræður í lok þessa mánaðar. Hann var fyrsti forstöðumaður safnanna í Borgarnesi og gegndi því starfi í aldarfjórðung á árinum 1969-1994. Hann vann mikið frumkvöðulsstarf og var m.a. sá sem vann með Hallsteini að því að koma gjöf hans til safnanna um 1970. Með því var lagður grunnur að Listasafni Borgarness sem á um 500 listaverk í dag. Bjarni kom einnig á fót náttúrugripasafni, sem á m.a. viðamikið fulgasafn og byggðasafn Borgarfjarðar elfdist mjög um hans daga, svo og skjalasafnið og bókasafnið.
 
Ljósmynd með frétt: Sigrún Elíasdóttir


Share: