Guðrún Bjarnadóttir fjallar um jurtalitun

janúar 17, 2018
Featured image for “Guðrún Bjarnadóttir fjallar um jurtalitun”

Á morgun, fimmtudaginn 18. janúar flytur Guðrún Bjarnadóttir erindi í Safnahúsi, um jurtalitun. Guðrún er náttúrufræðingur og hefur á undanförnum árum sérhæft sig í jurtalitun og miðlun upplýsinga um hana. Hún kennir grasafræði við Landbúnaðarháskólann, en hennar aðalstarf er að reka jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið þar sem hún jurtalitar íslenska ull og tekur á móti gestum og fræðir um litunaraðferðir. Í fyrirlestrinum verður farið yfir litunarhefðina frá landnámi til okkar daga.

Guðrún er fædd í Reykjavík en hefur verið búsett í Borgarfirði frá því árið 2003. Hún er menntuð frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri með BS próf í Búvísindum og MSc próf í náttúrufræðum. Meistararitgerð hennar fjallaði um grasnytjar, hvernig villtur gróður var nýttur í gamla daga. Hún er einnig menntaður dýrahjúkrunarfræðingur frá USA og er með kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla frá Háskólanum á Akureyri. Guðrún á að baki fjölbreyttan starfsferil þar sem hún hefur starfað sem landvörður í Mývatnssveit og Skaftafelli þar sem hún fór með gestum í grasafræðslugöngur.  Hún lærði að þekkja jurtirnar frá ömmu sinni og alnöfnu á Akranesi og lærði hannyrðir hjá móður sinni sem var handavinnukennari. Guðrún hefur alltaf haft áhuga á íslensku sauðkindinni og ullinni og jurtalitunin sameinar öll þessi áhugamál.

Fyrirlesturinn verður kl. 20.00 í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss.  Framsagan tekur um 45 mínútur, síðan verða umræður og kaffispjall.  Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis, dagskrá lýkur um 21.15.

Guðrún Jónsdóttir


Share: