Gróðursetning við innkomuna í Borgarnes

júlí 12, 2013
Í sumar verður gróðursett töluvert við báðar innkomurnar inn í Borgarnes. Lokið hefur verið við gróðursetningu í tæplega 300 fermetra svæði til móts við Geirabakarí. Það er ljóst að mikið veðurálag er á þessu svæði og því óvíst hvernig gengur með þá ræktun. Plönturnar sem valdar voru í beðið eru þó allar vindþolnar og allar seltuþolnar nema birkið sem sett var í mitt beðið. Auk birkiplantnanna 5 voru settar niður 93 strandavíðiplöntur, 8 glæsitoppar og 90 hæðarósir (Hjalti) í stað hansarósanna sem áætlað var að yrðu gróðursettar þar. Allar plönturnar voru keyptar hjá Gróðrastöðinni Gleym mér ei í Borgarnesi. Verkið var unnið af HSS verktak, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa og sumarstarfsmanni Borgarbyggðar. Meðfram beðinu er gert ráð fyrir gangstíg sem tengist inn á gangstíginn við Borgarfjarðarbrúnna og verður hann lagður síðar í sumar.
Næst verður farið í það að gróðursetja ylli milli aspanna við gamla Sólbakkann og vinna síðan svæðið við göngustíginn næst hringtorginu og gróðursetja þar ýmis tré í helming svæðisins og lægri blómstandi runna fremst.
 
Þegar því verður lokið verður farið í að útbúa nýtt beð við klettana til móts við Vegagerðina og gróðursetja í það.
 
Auk þessara verka þá verður farið að huga að fjölgun tegunda á svæðinu neðan við Húsasmiðjuna þar sem aspirnar frá Grundartanga sem gróðursettar voru fyrir nokkrum árum eru farnar að vera fallegar og mynda gott skjól. Að sama skapi veður farið að huga að því að fjölga tegundum á múrnum fyrir neðan Kvíaholtið.
 
Myndirnar tók Björg Gunnarsdóttir, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi.
 
 
 

Share: