Grænfáninn dreginn að húni í 8. sinn í Grunnskólanum í Borgarnes

febrúar 4, 2021
Featured image for “Grænfáninn dreginn að húni í 8. sinn í Grunnskólanum í Borgarnes”

Grænfáninn var fyrir skömmu dreginn að húni í 8. sinn í Grunnskólanum í Borgarnesi. Ragnhildur Kristín Einarsdóttir aðstoðarskólastjóri setti samkomuna og kallaði upp fráfarandi umhverfisnefnd sem skipuð er fulltrúum nemenda úr 2.–10. bekk ásamt fulltrúum kennara, annars starfsfólks og foreldra.  Hrafnhildur Ósk Orradóttir og Hugrún Harpa Ólafsdóttir, nemendur í 8. bekk, sögðu frá starfi nefndarinnar. Neysla og úrgangur var helsta viðfangsefni hennar og markmið voru að takmarka sorp og flokka betur, nýta pappír betur, fara vel með allar eigur skólans, koma óskilamunum í réttar hendur og standa að fræðslu um umhverfismál. Þeim Hrafnhildi og Hugrúnu fannst gaman og fróðlegt að starfa í umhverfisnefndinni og minntu á umhverfissáttmála skólans: Að flokka hvern dag kemur skapinu í lag!

Sigurlaug Arnardóttir fulltrúi Landverndar flutti stutt ávarp og að því búnu var grænfáninn dreginn að húni við mikinn fögnuð viðstaddra.

Þá var ný umhverfisnefnd kölluð upp og afhentu Elín Rós Stefánsdóttir í 6. bekk og Sara Líf Sigurðardóttir í 7. bekk nýjum fulltrúum þeim Guðrúnu Katrínu Sveinsdóttur í 5. bekk og Önnu Björk Þórisdóttur í 4. bekk  útskorinn grip sem táknar umboð nefndarinnar. Margrét Skúladóttir smíðakennari á heiðurinn af hönnun og gerð gripsins.

Loks kynnti aðstoðarskólastjóri næstu verkefni í umhverfismálum sem unnin verða undir forystu nýrrar umhverfisnefndar. Megin viðfangsefni verða loftlagsbreytingar og samgöngur og er ætlunin að komast að því hvað við hér í skólanum getum gert til að sporna við loftlagsbreytingum af mannavöldum.

Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem er veitt þeim skólum sem standa sig vel í umhverfismálum og vinna að sjálfbærni. Skólar sem hafa hlotið þessa viðurkenningu flagga fánanum við skólann sinn eða skarta skilti með grænfánamerkinu. Á Íslandi hefur Landvernd haft umsjón með verkefninu frá upphafi.

 

 


Share: