Gott samstarf við eldri borgara

september 14, 2007
Í sumar var gerð tilraun með að fá eldri borgara í Borgarfirði til að sinna safnvörslu á Pourquoi-pas? sýningunni í Englendingavík í Borgarnesi. Alls sinntu 7 manns þessari vörslu og unnu samtals 66 daga, en starfsfólk frá Safnahúsi annaðist afganginn af vöktunum.
Í dag var haldinn hádegisfundur í Landnámssetri, þar sem safnverðir sumarsins hittust til að fara yfir reynslu sína með starfsfólki Safnahúss og formanni menningarnefndar. Á fundinum kom fram að almennt hefur þetta fyrirkomulag verði afar farsælt og ánægja með það af beggja hálfu. Hugsunin að baki því að fá eldri borgara til samstarfs byggist á því að njóta reynslu þeirra og þekkingar sem safnvarða á staðnum og auka þannig fræðslugildi sýningarinnar. Þetta markmið voru allir sammála um að hefði náðst. Um 600 manns sóttu sýninguna í Englendingavík í sumar, bæði íslenskir og erlendir gestir. Þó nokkuð var um að Frakkar kæmu til að líta sýninguna augum, en vísindamaðurinn Charcot, skipherra á Pourquoi-pas? er mjög þekktur í Frakklandi fyrir rannsóknir sínar og vísindaafrek og minning hans þar enn í hávegum höfð.
Safnverðir úr hópi eldri borgara í sumar voru eftirtalin: Ágúst Árnason, Baldur Sveinsson, Edda Magnúsdóttir, Kristín Thorlacius, Magnús Guðbjarnarson, Ragnheiður Ásmundardóttir og Svava Halldórsdóttir
Ljósmynd: Frá sýningunni – Guðrún Jónsdóttir
 

Share: