Góð þátttaka á fyrirlestri um markmiðasetningu

janúar 11, 2019
Featured image for “Góð þátttaka á fyrirlestri um markmiðasetningu”

Góð þátttaka var á fyrirlestri Elísabetar Margeirsdóttur um markmiðasetningu. Elísabet er ofurhlaupari og næringarfræðingur að mennt. Fjallaði hún um mikilvægi þess að setja sér raunhæf markmið í næringu og hreyfingu á nýju ári. Einnig að finna það sem maður hefur áhuga á og brennur fyrir, en það þurfi hver og einn að finna hjá sér.

Elísabet hefur stundað hlaup í rúman áratug og lokið fjölmörgum maraþonum og lengri utanvegahlaupum með góðum árangri. Talaði Elísabet um að maður ætti að setja sér bæði langtíma og skammtímamarkmið og að taka mistökum fagnandi og læra af þeim. Hvað mataræði snertir lagði hún áherslu á að spyrja sig hvað maður borðar, hvenær og hversu mikið. Mikilvægt er að borða fjölbreytt fæði reglulega og í hófi.

Elísabet er ekki eini ofurhlauparinn sem var á fyrirlestrinum, en Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri hefur tekið þátt í fjölmörgum hlaupum og bauðst þátttakendum á fyrirlestrinum bók hans Að sigra sjálfan sig án endurgjalds.

Fyrirlesturinn er hluti af fræðslufundaröð um Heilsueflandi samfélag á árinu 2019.


Share: