Góð aðsókn að Héraðsbókasafni

september 28, 2011
Líkt og undanfarin ár hefur aðsókn verið góð að Héraðsbókasafni Borgarfjarðar en fyrstu átta mánuði ársins höfðu 5442 gestir sótt safnið heim. Það er ívið hærri tala miðað við sama tíma í fyrra en í heildina var gestafjöldi á bókasafninu á árinu 2010, 7800 gestir. Þá má benda á að töluverð aukning var á gestafjölda á árinu 2009 þegar gestum fjölgaði um 21% á milli ára.
Aðgangur að safninu er að sjálfsögðu öllum opinn en lánþegaskírteini kostar 1300 krónur og gildir í eitt ár í senn. Líklegt er að lánþegagjald hækki eilítið um næstu áramót. Frítt skírteini er fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega og einnig börn að átján ára aldri.Einnig er boðið upp á skammtímaskírteini sem gildir í þrjá mánuði í senn.
 
Safnkosturinn telur nú um 41 þús. eintök (fyrir utan safnkost Pálssafns). Lánþegahópurinn er fjölbreyttur og þarfir notenda að sama skapi líka, hvort sem um er að ræða efni tengt afþreyingu, atvinnu eða námi en benda má á í því sambandi að nemendur fjögurra skólastiga sækja safnið heim í heimildaleit. Þá færist það einnig í vöxt að þeir sem dvelja á starfssvæðinu til skemmri tíma, jafnt innlendir gestir sem erlendir nýti sér þjónustu safnsins en boðið er upp bæði notendatölvu og þráðlaust internet. Auk hins ágæta bókakosts safnsins má einnig finna ýmislegt annað efni, s.s tímarit, bæði ný og gömul sem oft nýtast t.d námsfólki, myndefni á DVD og VHS, tónlistar-og tungumáladiska. Þá er er hljóðbókarlán sívinsælt hjá öllum kynslóðum. Sé eintak ekki til á safninu kappkostar starfsfólk að veita þá þjónustu að nálgast efni í millisafnalán frá öðrum söfnum.
Sérstakur samstarfssamningur gildir milli safnsins og Bókasafns Akraness og nægir lánþegum að eiga gilt skirteini í öðru safninu til að geta notað bæði söfnin. Þá er hægt að skila efni á hvorum staðnum sem er.
Hér í lokin á þessari stuttu samantekt má nefna nokkur verkefni hafa unnið hafa sér fastan árlegan sess eins og sumarlestur, Ljóðasýning fimmtu bekkja og bókakvöld þar sem kynntar eru nýútgegnar bækur. Þá eru einnig unnin ýmis þróunarverkefni einsog kynningar á borgfirskum höfundum í héraði í gegnum tíðina.
 

Share: