Glæsilegu unglingalandsmóti í Borgarnesi lokið

ágúst 3, 2010
Um síðustu helgi fór Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands fram í Borgarnesi. Undirbúningur fyrir mótið var stuttur og snarpur, en mótshaldar höfðu aðeins rúmt hálft ár til undirbúnings. Allur undirbúningar gekk afar vel, enda markviss og vel skipulagður af unglingslandsmótsnefnd og starfsmönnum mótsins.
Mótshaldið sjálft fór fram í blíðskaparveðri sem skapaði frábæra umgjörð um mótið og það var afar ánægjulegt að heyra hversu ánægðir þátttakendur og gestir voru með allar aðstæður og framkvæmd mótsins.
Það sem í mínum huga gerði þetta mót að einstökum og afar ánægjulegum viðburði var ekki síst gestrisni íbúa, samheldni og metnaður. Skreytingar og tiltekt í götum og frábær þátttaka íbúa í vinnu fyrir íþróttafélögin, félagasamtök, sveitarfélagið og alla aðra sýndi þetta ótvírætt. Fyrir þetta ber að þakka af heilum hug og sýnir okkur að það eru allir vegir færir þegar íbúar standa saman.
Að lokum vil ég fyrir hönd Borgarbyggðar þakka Ungmennasambandi Borgarfjarðar og Ungmennafélagi Íslands fyrir afar gott samstarf og forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar í héraðinu fyrir frábært starf. Við getum öll verið stolt af unglingalandsmótinu í Borgarnesi.
Páll S. Brynjarsson
sveitarstjóri
 
Myndir: Sigríður Leifsdóttir og Indriði Jósafatsson

Share: