Gjaldfrjáls tannlæknaþjónusta

september 10, 2013
Í vor var undirritaður samningur milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands (TFÍ) um tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára. Hann öðlaðist gildi 15. maí 2013 og gildir til 30. apríl 2019, en hann verður innleiddur í áföngum. Sjá auglýsingu hér.
Samkvæmt samningnum eru tannlækningar barna greiddar að fullu af SÍ fyrir utan 2.500 kr. komugjald sem greiðist í upphafi hvers 12 mánaða tímabils. Forsenda greiðslu­þátttöku SÍ er skráning barns hjá heimilistannlækni. Börn sem falla ekki enn undir aldursmörk samningsins, eru í bráðavanda og búa við erfiðar félagslegar aðstæður geta engu að síður sótt um fulla greiðsluþátttöku.
3ja ára börn, 12-17 ára börn og börn í bráðavanda falla undir samninginn árið 2013
Í upphafi tók samningurinn til 15, 16 og 17 ára barna. Þann 1. september sl. bættust við 3ja, 12, 13 og 14 ára börn. Í áföngum munu öll börn falla undir samninginn, sjá áfangaskiptingu hér fyrir neðan. Samningurinn tekur einnig til barna sem ekki hafa náð aldursmörkum samningsins en eru í bráðavanda og búa við erfiðar félagslegar aðstæður skv. umsókn og tilvísun frá tannlækni. Þau börn sem samningurinn tekur ekki strax til eiga áfram rétt á greiðsluþátttöku vegna tannlæknakostnaðar í samræmi við endurgreiðslugjaldskrá Sjúkra­trygginga Íslands.
 

Share: