Fyrstu aðgerðir Borgarbyggðar til viðspyrnu vegna Covid-19

apríl 15, 2020
Featured image for “Fyrstu aðgerðir Borgarbyggðar til viðspyrnu vegna Covid-19”

Sveitarstjórn, sveitarstjóri og starfsmenn Borgarbyggðar hafa undanfarnar vikur unnið hörðum höndum að útbúa aðgerðaráætlun um hvernig megi koma til móts við bæði heimili og atvinnulífið á þessum erfiðum tímum. Það þarf að vanda vel til verka og greina hvaða aðgerðir koma sér best fyrir íbúa, fyrirtæki og þjónustu í sveitarfélaginu.

Það þarf að tryggja velferð íbúa, það er að segja afkomu þeirra og aðgang að órofinni grunnþjónustu sveitarfélagsins. Auk þess þarf að takmarka efnahagsleg áhrif á fyrirtæki í sveitarfélaginu eins og kostur er.

Það er áhyggjuefni hversu mikið atvinnuleysi er spáð fyrir sveitarfélagið og virðist það einkum koma fram í almennri þjónustu og ferðaþjónustu. Sveitarfélagið mun á næstu dögum vinna að aðgerðaáætlun þar sem verið er að horfa til átaksverkefna fyrir sumarið.

Borgarbyggð er nú þegar búið að kynna aðgerðir, til að mynda hafa fyrirtæki tök á því að fresta greiðslu fasteignagjalda, íbúar og fyrirtæki fá aukinn sveigjanleika í innheimtu og gjaldfrestum, gjöld voru lækkuð í samræmi við notkun á þjónustu í leik- og grunnskólum og gildistími líkamsræktar- og sundkorta verður framlengdur sem samsvarar lokun. Auk þess var hafist handa við að fara í frekari viðhaldsframkvæmdir en áætlað var sem skilar sér í tekjum til fyrirtækja í sveitarfélaginu.

Auk þeirra atriða sem nefnd eru hér fyrir ofan eru tíu þættir sem verið er að útfæra nánar á komandi vikum. Þau eru eftirfarandi:

  1. Haldið verður aftur að gjaldskrárhækkunum á árinu 2021 eins og kostur er.
  2. Flýting framkvæmda og viðhaldsverkefna á árunum 2020 og 2021.
  3. Virkja betur samtal milli sveitarfélagsins, atvinnulífsins og stoðkerfis atvinnulífsins.
  4. Styðja við lýðheilsuverkefni, á vegum íþróttahreyfingarinnar og með stuðningi til eldri borgara og öryrkja til heilsueflingar.
  5. Aukin áhersla á nýsköpun og atvinnusköpun í samstarfi við Hugheima.
  6. Aukin áhersla á menningu og listir.
  7. Aukin áhersla á þjónustu velferðarsviðs.
  8. Þátttaka í markaðsátaki við eflingu ferðaþjónustunnar, gerð markaðsstefnu fyrir Borgarbyggð og aukið fjármagn til markaðssetningar.
  9. Leita leiða við að fjölga íbúðarhúsnæði í Borgarbyggð í samstarfi við einkaaðila og stjórnvöld.
  10. Áhersla á flýtingu verkefna sem eru fjármögnuð að hluta eða að öllu leyti af ríkinu:

    1. Ljóðsleiðaravæðing
    2. Yfirfærsla yfir í þriggja fasa rafmagn
    3. Flýting framkvæmda á tengivegum og Uxahryggjaleið
    4. Fjölgun hjúkrunarrýma og breyting húsnæðis í Brákarhlíð
    5. Aukið fjármagn til nýsköpunar og atvinnustyrkir til kvenna

Þessir þættir miða að því að efla samfélagið í heild, mikilvægt er að skoða og greina sviðsmyndir þannig að þær aðgerðir sem verða teknar gagnist sem flestum í Borgarbyggð.

Ljóst er að tækifærin eru fjölmörg og nú er rétti tíminn til þess að sjá það góða sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða með samheldni og samstöðu að vopni.

Horfum fram á veginn og verum dugleg að styrkja grunnstoðir samfélagsins.


Share: