Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2020 – 2023 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar fimmtudaginn 14. nóvember sl. Það var annars vegar lögð fram tillaga til fjárheimilda fyrir árið 2020 og hins vegar fjárhagsáætlun fyrir árin 2021-2023.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að heildartekjur sveitarsjóðs og undirfyrirtækja á árinu 2020 verði 4.538 milljónir króna, heildarútgjöld án fjármagnsliða 4.267 milljónir króna, fjármagnsliðir 112 milljónir króna og rekstrarniðustaða ársins 160 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 248 milljónir króna.
Framkvæmda- og fjárfestingaáætlun fyrir árið 2020 er um 614 milljónir króna. Stærstu liðir þeirrar áætlunar eru að lokið verður við endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi, lokið við byggingu leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum og unnið áfram að lagningu ljósleiðara í dreifbýli Borgarbyggðar.
Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 14,52% en að álagningarhlutfall a-hluta fasteignaskatts (þ.e. íbúðarhúsnæði, sumarbústaðir, útihús o.fl.) lækki og verði 0,36% af fasteignamati. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á aðrar fasteignir verður óbreytt.
Gert er ráð fyrir að breyting á öðrum gjaldskrám taki mið af því sem fram kemur í lífskjarasamningum og hækki ekki meira en um 2,5% á milli ára. Undantekning frá því er að dvalargjöld á leikskólum sveitarfélagsins verða óbreytt frá því sem er á árinu 2019.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa áætluninni til síðari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar sem verður haldinn um miðjan desember. Fram að þeim tíma verður sérstaklega farið yfir framkvæmdaáætlun næsta árs. Í þeirri vinnu verður sérstaklega horft til verkefnisins Brúin til framtíðar, en það felur í sér að sett er upp heildaryfirlit um fjármál sveitarfélagsins þannig að samhengi milli rekstrarafkomu, fjárfestingargetu og efnahags verði skýr.