Víða mátti sjá börn og fullorðna klædda sem furðuverur á öskudaginn í Borgarnesi. Öskudagurinn er einn af uppáhaldsdögum margra og var tekið fagnandi á móti syngjandi börnum og ungmennum í fyrirtækjum og stofnunum.
Samkvæmt Vísindavefnum er Öskudagur upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Dagsetning hans getur sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars. Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og nafn hans er dregið af því að þá er sums staðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og til þess notaður jafnvel sérstakur vöndur. Annars staðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta. Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn minnir hann á forgengileikann og hreinsar hann um leið af syndum.