Fundur um mótun upplýsinga- og lýðræðisstefnu Borgarbyggðar

nóvember 1, 2017
Featured image for “Fundur um mótun upplýsinga- og lýðræðisstefnu Borgarbyggðar”

Þriðjudaginn 31. október var haldinn fundur um mótun upplýsinga- og lýðræðisstefnu Borgarbyggðar í Hjálmakletti. Til að upplýsinga- og lýðræðisstefna virki í raun, þarf hún að virka fyrir kjörna fulltrúa, starfsmenn stjórnsýslunnar sem eftir henni vinna og hún þarf að virka fyrir íbúa. Því ákvað Upplýsinga- og lýðræðisnefnd að hefja mótun stefnunnar á innanhúss vinnufundi um hverju upplýsinga- og lýðræðisstefna þarf að skila fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn sem eiga að vinna eftir stefnunni í framtíðinni.

Á fundinum var fræðsla um grundvöll árangursríkrar þátttöku og samráðs sem varpar ljósi á hvenær það á við að opna samtal við íbúa, á hvaða forsendum, hverjir þurfa að taka þátt og hvaða leiðir geta komið til greina. Þátttakendur unnu fyrst allir saman í hóp og síðan í smærri hópum þar sem umfjöllunarefnin voru; upplýsingamál, stjórnsýsla og þátttaka íbúa. Afrakstur fundarins verður notaður til að stilla upp ramma fyrir stefnu og vera grundvöllur að samtali við íbúa sem tekið verður á opnum fundi í framhaldinu. Þegar drög að stefnu liggja fyrir fara þau til umfjöllunar og samþykktar í stjórnkerfinu.

Þátttakendur á fundinum voru sveitarstjórn, nefndarfólk úr fastanefndum, sveitarstjóri og fulltrúar stjórnsýslunnar sem eru líklegust til að taka ákvörðun um hvort og hvenær á að opna samtal við íbúa. Einnig sátu fundinn fulltrúar Upplýsinga- og lýðræðisnefndar og mannauðsstjóri, sem er starfsmaður nefndarinnar og Sigurborg Kr. Hannesdóttir ráðgjafi sem stýrði fundinum.


Share: