Frétt úr æskulýðsstarfinu

nóvember 16, 2009
Félagsmiðstöðin Gaukurinn á Bifröst hefur svo sannarlega gengið í endurnýjun lífdaga þetta haustið. Félagsmiðstöðin er komin með öfluga formennsku eða Gauksráð eins og það er kallað. Það eru þær Jóhanna formaður, Tinna gjaldkeri og Gabríela ritari sem skipuleggja dagskrá í félagsmiðstöðinni sem er opin öllum unglingum í Varmalandsskóla einu sinni í viku þ.e. á fimmtudagskvöldum frá kl. 20.00 – 22.00.
Meðal þess sem gert hefur verið í haust er actionary-kvöld, video-kvöld og Hollywood-diskótek. Komið hefur verið á fót verslun og stendur hagnaðurinn af henni undir hluta af þeim útgjöldum sem leggja þarf í til að hafa félagsmiðstöðina sem skemmtilegasta. Það er hún Karítas sem er verslunarstjóri og stendur hún sig með prýði.
Um daginn var haldið diskótek og var þema Hollywood og mættu diskógestir uppbúnir sem hinar ýmsu persónur og leikendur. Þarna bar fyrir persónum úr Gossip Girl, Batman og öðrum frægum sjónvarpsþáttum, bíómyndum og teiknimyndum. Ekki dugði minna til fyrir þessar stjörnur en að leggja dregil við innganginn sem leiddi inn á dansgólfið ásamt því sem rýmið var skreytt með ljósaseríum enda gestirnir vafalaust vanir sviðsljósinu. Verðlaun voru svo veitt fyrir flotta búninga. Vinningshafar voru Valdimar sem Jókerinn úr The Dark Knight og Dagbjört sem Sandy úr Grease. Fengu þau að launum gjafabréf upp á pizzu og gos á Kaffi Bifröst.
Framundan er útgáfa fréttablaðs Gauksins, en það mun vera einblöðungur þar sem fram kemur það helsta sem Gaukurinn hefur gert á haustinu ásamt pistli frá formanni Gauksráðs. Í nóvember verður haldið paradiskótek og í desember verður svo jóladiskó þar sem allir mæta í sínum fínustu fötum, en meira um það síðar.
Eins og sjá má er Gaukurinn orðinn að alvöru félagsmiðstöð sem státar af einstökum mannauð. Gaukurinn er orðinn annað og meira en staður til að „hanga“ í, hann er aðstaða þar sem ungt fólk fær hugmyndir að verkefnum sem þau sjálf taka þátt í að framkvæma saman í hóp og þannig þróa hæfileika sem ekki verða lærðir af bók. Í verslunarráðinu er verslunarstjóri sem tekur ákvarðanir um innkaup og útsöluverð í sjoppunni. Þessi unga kona er 13 ára gömul, hver veit hverskonar viðskiptaákvarðanir hún verður fær um þegar hún verður 23 ára eða 33 ára? Gauksráðið samanstendur af unglingum sem hafa sýnt okkur umsjónarmönnunum að ungur aldur þarf ekki að þýða skortur á leiðtoga- og stjórnunarhæfileikum. Gaukurinn hefur einnig verið fyrsti vettvangur upprennandi tónlistarmanns svo eitthvað sé hér upptalið af starfinu okkar.
Okkur umsjónarmönnunum Gauksins langar mjög til að skora á Aðalheiði og unglingana í hinni dreifbýlisfélagsmiðstöðinni þ.e. Hvanneyri að skrifa smá frétt og segja frá starfinu þar.
 
Kveðja
Sindri og Silla
Gauknum Bifröst.
 
 

Share: