Frábært æskulýðsball

nóvember 19, 2012
Síðatliðinn fimmtudag var haldið forvarna- og æskulýðsball í Hjálmakletti í Borgarnesi. Á ballið, sem haldið er árlega, er unglingum í 8. – 10. bekkjum grunnskóla á Vesturlandi boðið til að koma og skemmta sér og kynnast. Kvöldið hófst á skemmtiatriðum frá skólum og félagsmiðstöðvum en að því loknu kom fram leynigestur sem að þessu sinni var Einar Mikael töframaður. Hann bókstaflega átti salinn í hálftíma löngu atriði sínu en Einar var með létt uppistand, sýndi töfrabrögð og kom með dúfurnar sínar sem vöktu óskipta athygli. Einar kynnti svo til sögunnar engan annan en Pál Óskar Hjálmtýsson, sem hélt uppi fjörinu það sem eftir lifði kvölds. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel og dönsuðu og sungu með. Alls voru um 340 unglingar að skemmta sér saman þetta kvöld. Ballið fór einstaklega vel fram og voru unglingarnir algjörlega til fyrirmyndar eins og venjulega. Haft á orði að þetta væri flottasta æskulýðsball ever!
Við í Óðali viljum nota tækifærið og þakka skólum og félagsmiðstöðvum fyrir komuna en án þeirra allra væri þessi viðburður ekki svona frábær.
Húsráð Óðals
 

Share: