Fótboltamót til minningar um Sverri Heiðar

september 15, 2009
Sverrir Heiðar
Ungmennafélagið Íslendingur stendur fyrir fótboltamóti á Hvanneyrarvelli næstkomandi laugardag. Mótið er haldið til minningar um Sverri Heiðar Júlíusson sem lést úr krabbameini í byrjun þessa árs. Sverrir var ötull áhugamaður um knattspyrnu og lagði mikinn metnað í þjálfun barna hvort sem var á Hvanneyri, í Borgarnesi eða annarsstaðar. Á mótinu verður keppt í sjö manna liðum í fimm aldursflokkum; 6-9 ára, 10-12 ára, 13-15 ára, 16-19 ára og 20 ára og eldri. Liðin mega vera blanda af báðum kynjum og þá er möguleiki að skrá lið undir nöfnum gömlu ungmennafélaganna í Borgarfirði, þ.e. Íslendings, Dagrenningar, Reykdæla, Stafholtstungna og Skallagríms.
Skráning fer fram hjá Sólrúnu Höllu Bjarnadóttur á solla@vesturland.is fyrir miðnætti 16. september og er skráningargjald kr. 500 fyrir hvern þátttakanda. Skráningargjald mun renna í menntunarsjóð barna Sverris Heiðars.
 
 

Share: