Á föstudaginn var mættu unglingar úr 14 skólum af vestur og miðvesturlandi á árlegt æskulýðsball í Borgarnesi.
Það eru Félagsmiðstöðin Óðal og Nemendafélag Grunnskóla Borgarness sem hafa veg og vanda af undirbúningi þessarar hátíðar. Unglingarnir sjálfir ákveða áróðursþema sem að þessu sinni var áróður gegn reykingum. Áhersla var lögð á að benda á hættu sem reykingar geta valdið eins og auknum líkum á krabbameini.
Til að minna rækilega á þetta var kirkjan í Borgarnesi, kirkjan á Borg á Mýrum og íþróttamiðstöðin upplýst með bleikum lit þetta kvöld.Um þrjátíu unglingar úr Óðali tóku þátt í að undirbúa og skreyta íþróttamiðstöðina um daginn og þegar svo um 450 unglingar mættu á hátíðina var íþróttamiðstöðin næsta óþekkjanleg.
Dagskrá hófst kl. 20.oo með glæsilegum dans, söng og tónlistaratriðum frá nemendafélögum skólanna. Þar á eftir lék ein vinsælasta hljómsveit landsins Í svörtum fötum fyrir dansi til miðnættis.
Allir unglingarnir sem mættu fengu barmmerki sem á stóð ” Ég hugsa… ég reyki ekki” frá Vímuvarnarnefnd Borgarbyggðar.
Engin agabrot komu upp og ljóst að unglingarnir virða þessa forvarnarsamkomu mjög enda ljóst að meirihluti unglinga er að gera jákvæða og góða hluti í lífi sínu og starfi sem tíunda mætti oftar í fjölmiðlum.
ij.