Frá unglingunum í Óðali:
Fimmtudaginn 15. nóvember munu Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi og félagsmiðstöðin Óðal halda árlegt Forvarna- og æskulýðsball í Hjálmakletti í Borgarnesi.
Þessi frábæri viðburður á sér langa sögu í félagsstarfi unglinga á Vesturlandi en þátttakendur koma frá 13 skólum víðsvegar af svæðinu. Húsið opnar kl. 19.30 og þá munu DJ sveinar Óðals þeyta skífum til kl. 20.20 en þá hefst kvöldvaka með skemmtilegum atriðum frá ýmsum skólum og félagsmiðstöðvum. Þegar krakkarnir hafa lokið skemmtiatriðunum kemur leynigestur sem án efa mun trylla lýðinn og kl. 21.00 stígur svo Páll Óskar á svið og gerir allt vitlaust til kl. 23.00.
Unglingar í 8.-10. bekkjum í grunnskólum Borgarbyggðar tóku þátt í að semja slagorð sem birt verða á vef Borgarbyggðar. Einnig voru valin 12 slagorð sem sett verða á boli sem allir krakkar í 8.-10. bekk í Borgarbyggð fá afhenta í þessari viku. Þá fá þeir krakkar sem mæta á ballið barmmerki með skemmtilegum slagorðum. Þema vikunnar er forvörn í ýmsum myndum.
Hlökkum til að sjá ykkur hress og kát á æskulýðsballi!