Forntraktorar vinsælir

september 23, 2009
Fullbókað er nú á námskeið um forntraktora sem Landbúnaðarsafn Íslands, Jörvi og Landbúnaðarháskólinn standa að þann 10. október næstkomandi. Verið er að kanna möguleika á viðbótarnámskeiði til að mæta eftirspurn. Á námskeiðinu verður fjallað um forntraktora á Íslandi og hvernig þeim má gera til góða, hirða þá og varðveita sögu þeirra sem hluta af menningarsögu sveitanna. Áhersla verður lögð á virkni þátttakenda í miðlun reynslu og þekkingar um viðfangsefnið og að efla tengsl þeirra.
Námskeiðið er opið öllum áhugamönnum um forntraktora á Íslandi og hentar vel þeim sem hafa áhuga á varðveislu traktora en einnig þeim sem vinna við varðveislu forntraktora. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiðinu er 20.
Athygli verður meðal annars beint að sögu og varðveislu Ferguson-dráttarvéla sem fagna munu 60 ára afmæli hérlendis á næsta ári. Í þessu sambandi má minna á ágæta bók Bjarna Guðmundssonar um Fergusontraktorinn, en sú bók kom út í sumar og hefur hlotið afar góða umsögn.
Grunnhugsunin með námskeiðinu er að draga athygli að forntraktorum sem minjum um mikilvægt skeið í íslensku þjóðlífi, er sýna þarf virðingu í allri meðferð, umönnun og hirðu. Líka er hugað að þeirri dægradvöl sem uppgerð fornvélar getur verið og að viðhalda verkþekkingu og miðla nýrri sem beita má við umönnun hinna sögulegu minja.
Form námskeiðanna byggist á jafningjafræðslu auk þess sem kunnáttumenn draga fram sérstaka þætti sem hafa þarf í huga. Kennarar á námskeiðinu um traktorarna eru Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháskólann og verkefnisstjóri Landbúnaðarsafns Íslands, Jóhannes Ellertsson vélvirki og kennari við Landbúnaðarháskólann, Haukur Júlíusson frkvstj., Erlendur Sigurðsson vélameistari Landbúnaðarsafns Íslands og Sigurður Skarphéðinsson vélvirki.
Nánar má sjá um námskeiðið á heimasíðu Landbúnaðarháskólans: www.lbhi.is
Ljósmynd með frétt: Erlendur Sigurðsson ekur um hlaðið á Hvanneyri á forntraktor úr Landbúnaðarsaafninu sumarið 2008.
Guðrún Jónsdóttir
 

Share: