Fljúgum hærra!

júní 4, 2002
Nú styttist óðum í Borgfirðingahátíðina, sem haldin verður dagana 14.-17. júní. Undirbúningur er á fullu og er dagskráin að fá á sig endanlega mynd. Þar kennir ýmissa grasa. Dagskrána er að finna í heild sinni hér.
Laugardaginn 8. júní verður tekið forskot á sæluna með “Forleik að Borgfirðingahátíð”. Þar ríður Systrakvartettinn úr Borgarnesi á vaðið og heldur lauflétta tónleika í Borgarneskirkju kl. 16.00.
Föstudaginn 14. júní hefst svo sjálf hátíðin…
Þann dag verður tekinn í notkun nýr sýningasalur í Safnahúsinu í Borgarnesi þegar opnuð verður stórglæsilega skógasýning “Milli fjalls og fjöru”. Þá verður frumsýnd stórmyndin “Þjóðhátíðardagar í Borgarnesi 1962-1976”. Um er að ræða kvikmyndir sem Einar heitinn Ingimundarson tók í Skallagrímsgarði á umræddu árabili og hefur sonur hans, Ingimundur Einarsson, útbúið þær til sýningar. Rúsínan í pylsuendanum þennan dag er hið rómaða Baðstofukvöld sem að þessu sinni verður haldið í Logalandi. Þar koma m.a. fram hinir heimsfrægu Kaffibrúsakarlar.
Laugardaginn 15. júní verður heilmikið húllumhæ í Borgarnesi. Byrjað verður á morgunverði fyrir alla í Skallagrímsgarði og endað í ekta íslenskum fjölskyldustórdansleik í Íþróttahúsinu. Þess á milli verður útimessa, tónlist, leiklist, stóruppboð, markaðstorg, bifhjól, götuleikhús o.fl. Og ekki má gleyma árgangamóti í götukörfubolta.
Sunnudagurinn verður í rólegri kantinum en þó nóg um að vera. Í Snorrastofu í Reykholti verður heilmikil menningardagskrá þar sem flutt verða frumsamin ljóð eftir Borgfirðinga og valinkunnir einstaklingar rýna í kímni í fornsögunum. Að dagskrá lokinni verður boðið upp á skoðunarferð um fornleifauppgröft í Reykholti undir styrkri leiðsögn. Boðið verður upp á margskonar gönguferðir, s.s. upp á Hafnarfjall, í Daníelslund, söguhring um Borgarnes, auk þess sem kvennahlaup ÍSÍ fer fram þennan dag. Kajakaleiga verður í Borgarnesi allan daginn þar sem fólki gefst kostur á að fara í siglingu um náttúruperluna Borgarvog.
Á þjóðhátíðardaginn eru hátíðadagskrár á þremur stöðum í héraðinu. Í Brautatungu, í Logalandi og í Borgarnesi. Í Borgarnesi hefst hátíðin kl. 10 með leikjum og sprelli á íþróttavellinum. Kl. 11 munu fallhlífastökkvarar svífa um loftin blá og lenda á vellinum. Hátíðarmessa verður í kirkjunni kl. 13 og að henni lokinni fer heilmikil skrúðganga niður í Skallagrímsgarð. Boðið verður upp á andlitsmálun fyrir börn (og fullorðna). Yngsta kynslóðin mætir í skrautlegum klæðnaði og allir eru hvattir til að vera með höfuðfat. Á hátíðardagskránni í Skallagrímsgarði verður boðið upp á margskonar skemmtiatriði þar sem börnin verða í brennidepli. Seinni partinn verður stjórnaspil þar sem stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms skorar á nýja bæjarstjórn í fótbolta. Þar mun hlutkesti að sjálfsögðu ráða úrslitum. Dagskránni lýkur svo með útiballi við íþróttahúsið frá kl. 20.00-23.00.
Hér er aðeins fátt eitt talið. Borgfirðingar, nær og fjær, eru hvattir til að kynna sér dagskrána og að gera Borgfirðingahátíð 2002 að einni eftirminnilegustu helgi sumarsins.

Share: