Árlegt Forvarna- og æskulýðsball unglinga fór fram í Borgarnesi síðastliðinn fimmtudag. Um 300 hundruð unglingar frá 16 skólum komu á ballið og skemmtu sér hið besta án vímuefna.
Æskulýðsballið er mjög vinsælt meðal unglinga og þessi árlega uppákoma er eitt fjölmennasta unglingaball sem haldið er hér um slóðir.
Í mörgum skólanna eru unnin forvarnarverkefni dagana fyrir ball, bæði inní í skólunum og í félagsmiðstöðvum. Að þessu sinni var afrakstur þeirrar vinnu m.a. barmmerki með slagorðum en allir krakkarnir fengu merki afhent á ballinu.
Ekkert agabrot kom upp og er það ánægjulegt dæmi um hve unglingarnir virða þessa samkomu og vilja halda henni áfram. Trúbadorar frá Borgarnesi og Hólmavík tróðu upp ásamt uppistandaranum Sólmundi Hólm. Eftir skemmtiatriðin lék Hljómsveitin Á móti sól fyrir dansi og sá sannarlega um að allir skemmtu sér hið besta.
Á næsta ári verður tuttugasta Æskulýðsballið haldið og búast má við mikilli hátíð af því tilefni. Unglingarnir í Óðali eru nú þegar farin að velta fyrir sér hvernig Æskulýðsballið á afmælisári megi verða sem skemmtilegast og best.