Laugardaginn 2. mars sl stóðu sveitarfélögin í Borgarfirði, norðan Skarðsheiðar, sameiginlega að málþingi um atvinnulíf, menntun og búsetu á Hótel Borgarnesi. Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð, átti hugmyndina að málþinginu og greinilegt er að Borgfirðingum þykir málið afar brýnt því þeir fjölmenntu á Hótelið þennan dag og tóku virkan þátt í þinginu. Tilgangurinn með þinginu var að skerpa ímynd Borgarfjarðar og að gera svæðið að sýnilegri valkosti til búsetu og atvinnustarfsemi. Flutt voru sex framsöguerindi og unnið í fimm málefnahópum. Í lok málþingsins flutti Páll Pétursson, félagsmálaráðherra ávarp og bauð þátttakendum upp á léttar veitingar.
Framsöguerindin gengu öll út það hvernig bæta megi samkeppnisstöðu svæðisins, bæði hvað varðar íbúa og atvinnustarfsemi. Dagskrá þingsins er hér. Bjarni Guðmundsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri stýrði málþinginu af mikilli snilld. Fyrstur til að flytja sína framsögu var Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá Vírnet Garðastál hf. Kallaði hann erindi sitt “Sókn á réttum vallarhelmingi” og í því heimfærði hann aðferðir vinningsliðs í knattspyrnu yfir á markmið Borgfirðinga að vera í fararbroddi í atvinnulífinu. Hann kom m.a. inn á það hverjir eru samherjar og hverjir eru mótherjar. Á eftir Stefáni Loga kom Guðmundur Ólafsson, lektor við HÍ og Viðskiptaháskólann á Bifröst. Hann fór ótroðnar slóðir í framsetningu sinni á erindi sem bar titilinn “Hvað vildi Búkarín: Hvaða fyrirtæki og hver ekki?” Niðurstaða hans var að varasamt væri að einblína á fáa kosti og að ekki mætti fyrirfram dæma atvinnugreinar úr leik. Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, landslagsarkitekt og framkvæmdastjóri Landlína og lagði hún áherslu á fjölskylduna og mikilvægi þess að sveitarfélögin búi fjölskyldum gott umhverfi. Lagði hún mikla áherslu á dagvistun barna frá 9 mánaða aldri. Við upphaf og í lok erindisins sem bar heitið “Í leikskóla er gaman” hafði hún þann skemmtilega hátt á að fá málþingsgesti til að syngja með sér lagið Í leikskóla er gaman en í seinna skiptið var textanum breytt þannig að sungið var “Í Borgarfirði er gaman”. “Borgarfjörður – allir heimsins möguleikar, en ekki gömlu aðferðirnar” var yfirskrift erindis Jóns Sigurðssonar, rekstrarhagfræðings. Jón leit til framtíðar og fjallaði um horfurnar í byggðamálum, einkum varðandi Miðvesturland. Hann hvatti menn til að festa sjónir á tækifærum og möguleikum en ekki láta breytingar, óvissu, áhættu og erfiðleika kúga sig. Taldi hann að ef það væri gert þá ætti Borgarfjörður alla heimsins möguleika. Bjarnheiður Hallsdóttir, ferðamálafræðingur og framkvæmdastjóri Katla-Travel, flutti erindið “Ferðaþjónusta – falinn fjársjóður” þar sem hún fjallaði á faglegan hátt um málefni ferðaþjónustunnar og þá sérílagi möguleika Borgarfjarðar. Hennar niðurstaða var sú að í Borgarfirði væri að finna marga misvel falda fjársjóði og að svæðið væri í lykilaðstöðu til að stækka sína sneið hvað ferðamenn varðar. Ástæða þess er ekki hvað síst staðsetningin og sú þjónusta sem þegar er fyrir hendi. Síðasta erindið kom frá Grétari Þór Eyþórssyni, forstöðumanni Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri og Byggðarannsóknarstofnunar. Í erindi sínu “Efling sveitarfélaga og byggðaþróun” fór hann yfir það hvaða samfélagsþættir hafa áhrif á byggðaþróun og hvernig sveitarfélögin geta haft áhrif á hana. Einnig kom hann inn á sameiningu sveitarfélaga og það hvernig slíkt getur haft áhrif á búsetuskilyrði og atvinnulíf.
Eftir að framsögunum var lokið og málþingsgestir höfðu gætt sér á veitingum í boði 3ja fyrirtækja í Borgarnesi, Geirabakarís, Gunnars kleinuhringja og JGR umboðs- og heildverslunar var skipt upp í eftirfarandi fimm hópa.
> Hópur 1 Atvinnulíf og þekkingarsamfélag
Hópstjóri: Magnús Árni Magnússon, aðstoðarrektor Viðskiptaháskólans
> Hópur 2 Fjölskyldan og samfélagið
Hópstjóri: Helga Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð
> Hópur 3 Breytt samfélag
Hópstjóri: Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð
> Hópur 4 Ferðaþjónusta í Borgarfirði
Hópstjóri: Þórunn Gestsdóttir, sveitarstjóri Borgarfjarðarsveitar
> Hópur 5 Byggðaþróun
Hópstjóri: Ríkharð Brynjólfsson, oddviti Borgarfjarðarsveitar
Hópstjórarnir kynntu í lokin umræður sinna hópa. Síðasta orðið átti Páll Pétursson félagsmálaráðherra sem flutti stutt ávarp. Eftir að Bjarni Guðmundsson sleit málþinginu áttu gestir saman ánægjulega stund með léttum veitingum í boði ráðherra.