Greiningardeild Arionbanka hefur frá árinu 2011 tekið saman skýrslu um fjárhagslegar niðurstöður ársreikninga þeirra íslensku sveitarfélaga sem hafa yfir 1.500 íbúa. Á síðasta ári voru það 28 sveitarfélög sem höfðu yfir 1.500 íbúa af þeim 74 sem eru í landinu. Fulltrúar Arionbanka héldu nýlega fund með forsvarsmönnum Borgarbyggðar um þær niðurstöður sem snúa að sveitarfélaginu. Unnið er með niðurstöður úr samstæðureikningum sveitarfélaganna (A+B hluta). Í samantekt greiningardeildarinnar kom fram að hagur Borgarbyggðar hefur batnað mjög á síðustu tveimur árum þegar fjárhagsleg staða þess er metin mið hliðsjón af þeim kennitölum sem fyrirtækið notar í samantekt sinni. Við 15 kennitölur eru sett upp svokölluð veikleikamerki ef niðurstöðurnar eru undir eða yfir ákveðnum mörkum. Fjöldi veikleikamerkja er síðan lagður saman til að fá heildaryfirlit um stöðu hvers og eins sveitarfélags miðað við önnur í þessum hópi. Í samandregnu yfirliti kemur fram að Borgarbyggð er eitt af fimm sveitarfélögum sem hefur ekkert veikleikamerki samkvæmt greiningu Arionbanka. Það er mikil breyting frá fyrri árum. Á árunum 2011-2014 voru árlega 10-11 veikleikamerki hjá Borgarbyggð samkvæmt þessari greiningu, þau voru sex á árinu 2015 og ekkert á árinu 2016. Þetta er mesti viðsnúningur eins sveitarfélags í þessu sambandi á þeim tíma sem greiningardeild Arionbanka hefur unnið þessa greiningu. Mikils er um vert að verja þennan árangur sem hefur náðst með samstilltu starfi kjörina fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins.